Jón Daði funheitur í bikarnum

Jón Daði Böðvarsson var heldur betur á skotskónum þegar Reading lagði Stevenage í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Jón Daði fékk sjaldséð tækifæri í byrjunarliði Reading og nýtti það vel. Hann skoraði öll mörk liðsins í 3-0 sigri og voru þau hvert öðru glæsilegra. Hann kom Reading í 1-0 á 32. mínútu og skoraði með þrumuskalla á 44. mínútu. Staðan 2-0 í hálfleik og þrennan var svo innsigluð af öryggi á 64. mínútu leiksins. Reading mætir Sheffield Wednesday í 4. umferð bikarsins.

Þetta er fyrsta þrenna Jóns Daða á Englandi en hann hefur spilað 68 leiki þar, 48 fyrir Úlfana og 20 fyrir Reading.

Selfyssingurinn kemst á spjöld sögunnar sem einn af fáum knattspyrnumönnum sem hafa skorað þrennu í sitthvorri treyjunni, en Reading spilaði fyrri hálfleikinn í aðalbúningi sínum og seinni hálfleikinn í varabúningnum, þar sem búningar liðanna þóttu of líkir í fyrri hálfleik.

Fyrri grein„Mikil heilsumenning í Árborg“
Næsta greinÁrborg og Flóahreppur skoða sameiningarmál