Jón Daði efnilegastur

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson var útnefndur efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar 2012 á lokahófi KSÍ sem fram fór í Hörpunni í gærkvöldi.

Verðlaunin þurfa ekki að koma nokkrum á óvart því Jón Daði fór á kostum á löngum köflum í sumar og var langbesti leikmaður Selfossliðsins. Pilturinn er því hlaðinn verðlaunum eftir síðustu daga en á laugardagskvöld var hann valinn leikmaður ársins á lokahófi Selfoss.

„Þetta er súrsætt; að falla en vera valinn efnilegastur. Það er mikill heiður og þetta var eitt af markmiðunum í sumar og ég er virkilega ánægður að hafa náð þessu,“ sagði Jón Daði meðal annars við mbl.is.

Að sögn Jóns Daða er ólíklegt að hann taki skref afturábak á ferlinum og leiki með Selfyssingum í 1. deildinni að ári. Helst hefur hann hug á að fara erlendis en á föstudag heldur hann til æfinga hjá Silkeborg, sem leikur í efstu deild í Danmörku.