Jón Bjarni Bragason, Breiðablik og Hera Christiansen, FH, sigruðu í árlegri Kastþraut Óla Guðmunds, sem haldin var á Selfossvelli í síðustu viku.
Jón Bjarni sigraði í karlaflokki með 2.805 stig og þar á eftir komu heimamennirnir Örn Davíðsson með 2.743 stig og Kristján Kári Ólafsson með 2.451 stig. Í kvennaflokki sigraði Hera með nokkrum yfirburðum, hún náði í 3.013 stig en hörð keppni milli Selfyssinga var um 2. sætið þar sem Arndís Eva Vigfúsdóttir hafði betur gegn Hönnu Dóru Höskuldsdóttur með 2.282 stig gegn 2.266.
Nítján keppendur tóku þátt í mótinu sem fram fór við ágætar aðstæður, það skiptust á skin og skúrir og rigndi hressilega á köflum.

Tólf HSK-met voru sett í kastþrautinni. Örn Davíðsson tvíbætti HSK-metið í sleggjukasti í flokki 35-39 ára, hann kastaði lengst 47,78 m en fyrra metið átti Pétur Guðmundsson, 46,43 m.
Kristján Kári setti samtals fjögur HSK-met en hann bætti metið í lóðkasti í flokki 16-17 ára, kastaði 11,75 m og hann bætti svo stigametið í kastþrautinni í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.
Þá bætti Páll Jökull Pétursson, Umf. Selfoss, sex HSK metum í safnið í þrautinni í flokki 65-69 ára. Páll setti met í sleggjukasti, spjótkasti og í kastþraut með karlaþyngdum. Páll hefur þar með sett 51 HSK met á þessu ári og nálgast met Óla Guðmunds um flest HSK met á einu almanaksári, en Óli setti 53 HSK met árið 2024.



