Jón Arnar útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ

Jón Arnar ásamt Willum Þór Þórssyni, forseta ÍSÍ og Andra Stefánssyni, framkvæmdastjóra ÍSÍ. Ljósmynd/Mummi Lú

Jón Arnar Magnússon, frjálsíþróttamaður frá Hamratungu í Gnúpverjahreppi, var í gær útnefndur í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum í nóvember síðastliðnum en Jón Arnar er 27. íþróttamaðurinn sem útnefndur er í Heiðurshöllina og fyrsti íþróttamaðurinn af sambandssvæði HSK. Afhending viðurkenningarinnar fór fram þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2025 voru tilkynnt.

Jón Arnar Magnússon er fæddur 28. júlí 1969. Hann hóf snemma keppni í frjálsíþróttum og varð strax sigursæll. Jón Arnar varð Norðurlandameistari í tugþraut árið 1988 í Svíþjóð. Ári síðar fékk hann fimm gullverðlaun í flokki 15-22 ára á Íslandsmeistaramótinu.

Jón Arnar keppti á þrennum Ólympíuleikum, meðal annars í tugþraut á Ólympíuleikunum í Atlanta þar sem hann varð í 12. sæti með 8.274 stig, sem var nýtt Íslandsmet í greininni.

Meðal árangurs Jóns Arnars má nefna bronsverðlaun á EM innanhúss í sjöþraut árið 1996 og bronsverðlaun á HM innanhúss í sjöþraut 1997. Þá vann hann þrenn gullverðlaun og eitt brons á Smáþjóðaleikum 2001.

Jón Arnar var kjörinn Íþróttamaður ársins árin 1996 og 1997.

Fyrrum boðhlaupsfélagarnir Jón Arnar og Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, á hófinu í gærkvöldi. Ljósmynd/HSK

46 ára HSK met
Jón setti fjölda Íslandsmeta á sínum ferli og ennþá standa metin hans í 110 m grindarhlaupi frá 1997, tugþraut frá 1998, 60 m grindarhlaup innanhúss frá 2000, langstökk innanhúss frá 2000 og sjöþraut innanhúss frá 1999. Hann á sem sagt 25-28 ára gömul met sem enginn hefur enn slegið.

Hann á einnig HSK met karla í 100 m og 200 m hlaupi og langstökki og þau met eru 27-28 ára gömul. Jón Arnar á reyndar einnig ennþá nokkurn fjölda HSK meta í yngri aldursflokkum og sé grafið djúpt í metabækurnar má þar finna 46 ára gamalt héraðsmet hans í hástökki 11 ára pilta sem ennþá stendur, 1,40 m.

Til gamans má geta þess að hann á einnig Íslandsmet í 50 m grindahlaupi frá 2000 og 300 m hlaupi frá 1994.

Jón Arnar keppti síðast fyrir HSK á Landsmóti UMFÍ á Selfossi árið 2013. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Jón Arnar fór um víðan völl í ræðu sinni og þakkaði eiginkonu sinni, Huldu Ingibjörgu Skúladóttur, sérstaklega fyrir umburðarlyndið í gegnum árin. Ljósmynd/Mummi Lú
Boðhlaupssveit HSK á Landsmóti UMFÍ í Mosfellsbæ 1990; Engilbert Olgeirsson, Jón Birgir Guðmundsson, Ólafur Guðmundsson og Jón Arnar Magnússon. Ljósmynd/HSK

Fyrri greinÞór byrjar árið á sigri
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu á heimavelli