Jólasteikin sat í Selfyssingum

Gerald Robinson skoraði 33 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í 1. deild karla í körfubolta er hafin eftir stutt jólafrí og í kvöld tóku Selfyssingar á móti Fjölni í hörkuleik. Gestirnir komu betur undan jólasteikinni og sigruðu 81-91.

Fyrsti leikhluti var leikhluti áhlaupanna þar sem Selfyssingar byrjuðu af krafti og komust í 13-7 en Fjölnir jafnaði 15-15. Þá tók Selfossliðið aftur við sér og leiddi 24-19 að loknum 1. leikhluta. Um miðjan 2. leikhluta jafnaði Fjölnir 32-32 og á lokamínútum fyrri hálfleiks voru gestirnir skrefinu á undan. Staðan var 45-48 í leikhléi.

Fyrst fór að skilja á milli liðanna að einhverju ráði í upphafi seinni hálfleiks þegar Fjölnir gerði 11-3 áhlaup og náði ellefu stiga forskoti, 48-59. Þann mun náðu Selfyssingar aldrei að vinna upp en munurinn varð minnstur fimm stig í upphafi 4. leikhluta, 68-73. Fjölnir lokaði leiknum af öryggi og hleypti Selfyssingum ekki nær.

Gerald Robinson var besti maður Selfoss í kvöld með 25 stig og 11 fráköst og Gasper Rojko var sömuleiðis öflugur með 17 stig og 14 fráköst. Austin Magnús Bracey skoraði 19 stig í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss.

Fjölnir fór uppfyrir Selfoss með sigrinum, Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig en Fjölnir í 5. sæti með 16 stig.

Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 25/11 fráköst, Austin Magnus Bracey 19, Gasper Rojko 17/14 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 11, Vito Smojver 7/4 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 2.

Fyrri greinSmitum fjölgar mikið á milli daga
Næsta greinSlasaðist við ísklifur í Öxarárfossi