Jólagjöf til Tindastóls

Þórsarar töpuðu nokkuð óvænt fyrir Tindastól í Iceland Express deild karla í körffubolta í kvöld. Gestirnir voru í góðum gír og sigruðu, 74-78.

Stólarnir hafa ekki verið að sýna mikla takta í vetur, á meðan Þórsarar eru búnir að standa í öllum stærstu liðum deildarinnar, og sigra meðal annars topplið Grindavíkur á útivelli.

Gestirnir byrjuðu mun betur og virtust grimmari og hungraðri í sigur. Vörn heimamanna var ótraust og áttu leikmenn Tindastóls auðvelt með að skora þau stig sem þeir þurftu. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 12-18 gestunum í vil.

Í öðrum leikhluta var annað uppi á teningnum. Þórsarar skelltu í lás í vörninni og byrjaði Guðmundur Jónsson að gera það sem hann gerir best. Þórsarar komust yfir fyrir hálfleik, leiddu 36-30 í hálfleik, og virtust ætla að rífa sig upp og klára leikinn.

Það var þó mikið langt frá því að vera staðreyndin, og sigruðu Tindastólsmenn 3. leikhluta 10-25. Þeir fengu þó góða hjálp frá dómurunum sem gáfu gestunum trekk í trekk jólagjafadóma og var Benedikt þjálfari Þórsara farinn að hita te á enninu á sér af reiði.

Fyrir lokaleikhlutan var níu stiga munur á liðunum og Stólarnir voru með augun á stigunum tveimur. Dómararnir héldu áfram að láta ljós sitt skína í 4. leikhluta og voru áhorfendur leiksins ekki langt frá því að hefja uppþot þegar dómararnir brugðust á mikilvægum augnablikum.

Leikurinn endaði 74-78 Tindastólsmönnum í vil, og er svosem alveg sanngjarnt að segja að þeir hafi átt skilið að sigra. Þeir börðust vel og uppskáru eftir því og hafa nú unnið fjóra deildarleiki í röð og því heitasta lið landsins um þessar mundir.

Guðmundur Jónsson var stigahæstur hjá Þór með 19 stig, Darrin Govens skoraði 18, Baldur Þór Ragnarsson 11, Grétar Ingi Erlendsson 9, Darri Hilmarsson 8, Marko Latinovic 5 og Michael Ringgold 4.