Johnson með stórleik í mikilvægum sigri

Hamar vann mikilvægan sigur á Grindavík á útivelli í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Di'Amber Johnson skoraði 31 stig í öruggum 79-92 sigri Hamars.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en Hamar tók sig til á síðustu þremur mínútunum og breytti stöðunni úr 16-13 í 18-25. Grindavík skoraði síðustu körfu leikhlutans og staðan var 20-25 að tíu mínútum liðnum. Annar leikhluti var jafn og lítið skorað en Hamar leiddi í hálfleik var 36-38.

Hvergerðingar voru sterkari í síðari hálfleik, Hamar náði mest 13 stiga forskoti í 3. leikhluta en Grindavík minnkaði muninn niður í þrjú stig í upphafi 4. leikhluta, 66-69. Þá tóku Hamarskonur aftur við sér með 2-16 áhlaupi og gerðu þar með út um leikinn.

Di’Amber Johnson átti stórleik fyrir Hamar með 31 stig og 11 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 22 stig, Íris Ásgeirsdóttir 19, Marín Laufey Davíðsdóttir 9 auk þess sem hún tók 13 fráköst, Kristrún Rut Antonsdóttir og Sóley Guðgeirsdóttir skoruðu 4 stig og Katrín Eik Össurardóttir 3.

Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig og tekur næst á móti Val þann 29. janúar.