Johnson fór á kostum gegn Grindavík

Hamar vann góðan sigur á Grindavík í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði voru 70-65.

Hamar byrjaði betur í leiknum og leiddi 8-5 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af 1. leikhluta. Gestirnir svöruðu þá með 2-9 áhlaupi og leiddu 10-14 að 1. leikhluta loknum. Annar leikhluti var hnífjafn og staðan í hálfleik var 29-31, gestunum í vil.

Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta, jafnræði með liðunum en Grindavík yfir á stigatöflunni. Gestirnir leiddu 40-46 þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum en Di’Amber Johnson skoraði sex stig fyrir Hamar á lokamínútunni og staðan var 46-48 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Þar hélt Johnson áfram með fjögur fyrstu stigin í leikhlutanum og hafði þá skoraði tíu stig í röð. Hamar náði forystunni á fyrstu sekúndum leikhlutans og gáfu hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks.

Staðan var 66-58 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en Grindavík minnkaði muninn í 66-64 á stuttum kafla. Hamar hélt haus og Johnson kláraði leikinn á vítalínunni.

Di’Amber Johnson var stigahæst hjá Hamri með 33 stig, Fanney Lind Guðmundsdóttir átti fínan leik, skoraði 16 stig og tók 13 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 10 stig, Íris Ásgeirsdóttir 9 og Dagný Lísa Davíðsdóttir 2.

Fyrri greinKveikt á jólaljósum 14. nóvember
Næsta greinGefur 90 sekúndulítra af 85°C heitu vatni