Jóhann Ólafur magnaður í góðum sigri Selfoss

Selfyssingar gerðu góða ferð til Grindavíkur í kvöld þar sem þeir skelltu toppliðinu í 1. deild karla í knattspyrnu, 1-3.

Leikurinn var rólegur fyrsta korterið, Selfyssingar lágu til baka og leyfðu Grindvíkingum að rúlla boltanum á milli sín og fátt var um færi. Á 16. mínútu fengu Selfyssingar sitt fyrsta færi þegar Luka Jagacic komst í gott færi eftir klafs í teignum en Grindvíkingar komust fyrir skotið. Þremur mínútum síðar átti Sindri Snær Magnússon hörkuskot að marki Grindavíkur en markvörður heimamanna varði vel frá honum.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn voru Selfyssingar mun öflugri og boltinn gekk vel á milli manna um allan völl. Selfoss var líklegri aðilinn á þessum mínútum og þeir nýttu sér meðbyrinn á 36. mínútu þegar Ingólfur Þórarinsson kom þeim yfir með góðu skoti úr teignum eftir undirbúning Javier Lacalle.

Grindvíkingar höfðu sig lítið í frammi í sókninni en á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu þeir þó gott færi eftir hornspyrnu en Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfoss, varði vel. 0-1 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn á stórsókn en heimamenn svöruðu með skoti upp í samskeytin á 53. mínútu. Boltinn virtist ætla að syngja í netinu en Jóhann Ólafur kom þá á fluginu og varði heimsmeistaralega.

Leikurinn var í jafnvægi eftir þetta, Andy Pew var nálægt því að skora á 70. mínútu með skalla eftir hornspyrnu en þremur mínútum síðar kom Sindri Snær Selfyssingum í 0-2 með frábæru marki. Hann lék tvívegis á varnarmann Grindavíkur fyrir utan teig og lét svo vaða upp í markvinkilinn.

Heimamenn juku sóknarþungann í kjölfar marksins og fengu tvívegis dauðafæri þar sem Jóhann Ólafur kom enn til bjargar. Hann kom hins vegar engum vörnum við þegar heimamenn minnkuðu muninn í 1-2 á 80. mínútu eftir góða sókn.

Á lokakaflanum voru Grindvíkingar síðan líklegri en Selfyssingar voru ekki á því að tapa 2-0 forystu niður í jafntefli annan leikinn í röð, og til að koma í veg fyrir það tryggði Sindri Snær Selfyssingum 1-3 sigur með marki eftir skyndisókn á lokamínútu leiksins.

Selfyssingar eru komnir með 11 stig eftir þennan leik og taplausir í síðustu fjórum leikjum. Þeir sitja í 6. sæti í augnablikinu og taka næst á móti Leikni, miðvikudaginn 3. júlí, en Leiknir er í 4. sæti með 13 stig.

Fyrri greinMeð fulla vasa af þýfi
Næsta greinÆgir og Hamar töpuðu