Knattspyrnufélag Rangæinga kvaddi falldrauginn með virktum þegar liðið lagði botnlið Augnabliks 3-0 í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Það er því ljóst að KFR mun áfram leika í 3. deildinni að ári en eftir að hafa siglt nokkuð lygnan sjó í allt sumar var liðið búið að sogast niður í botnbaráttuna í deildinni undir lokin.
KFR stjórnaði leiknum gegn Augnabliki lengst af og strax á 4. mínútu kom Hjalti Kristinsson Rangæingum yfir. Hann fékk þá góða sendingu innfyrir frá Almir Cosic og vippaði boltanum yfir markvörð Augnabliks.
KFR hélt áfram að þrýsta á gestina og hefði getað bætt við mörkum á fyrsta korterinu en þegar leið á fyrri hálfleik varð fátt um færi á báða bóga. Almir reyndi nokkur skot fyrir utan sem fóru ekki á rammann þó að hann hafi verið nálægt því með góðu skoti á 24. mínútu.
Á 37. mínútu komst KFR í 2-0 með glæsilegu marki. Guðmundur Garðar Sigfússon fékk þá góða sendingu innfyrir frá mótherja og átti skot að marki sem var varið. Frákastið barst út fyrir teig og þar kom Jóhann Guðmundsson aðvífandi og lagði boltann með hnitmiðuðu innanfótarskoti upp í samskeytin. Glæsimark sem tryggði KFR 2-0 forskot í hálfleik.
Leikurinn var jafnari í síðari hálfleik en liðunum gekk bölvanlega að koma sér í góð færi. Gestirnir sköpuðu nokkrum sinnum usla inni í vítateig KFR og á 70. mínútu slapp Hjalti innfyrir vörn Augnabliks en mokaði boltanum yfir.
Rangæingar áttu svo hættulegri færi alveg undir lok leiks og náðu þá að bæta við þriðja markinu. Á 84. mínútu fékk KFR hornspyrnu, boltinn rataði á Lárus Viðar Stefánsson á markteignum þar sem brotið var á honum og hann féll við. Dómarinn dæmdi ekkert en Lárus náði að rísa á fætur og spyrnti um leið fyrir markið þar sem Almir var á auðum sjó og skallaði boltann í netið.
Á 88. mínútu slapp Andri Freyr Björnsson innfyrir vörn gestanna eftir sendingu frá Przemyslaw Bielawski en markvörður Augnabliks varði vel frá honum. Á lokamínútunni fékk svo Almir sannkallað dauðafæri á markteig en aftur var markvörður gestanna vel á verði.
Með sigrinum fór KFR upp í 3. sæti deildarinnar með 25 stig en ÍH og Víðir eru í næstu sætum og eiga leiki til góða.