Jóhann bjargaði stigi

Selfoss og KA skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Norðanmenn voru sterkari í fyrri hálfleik og uppskáru fyrsta markið á 32. mínútu. Markið skoraði Andrés Vilhjálmsson með skalla eftir hornspyrnu.

Selfyssingar byrjuðu betur í seinni hálfleik og voru aðgangsharðir upp við mark KA fysta hálftímann. Viðar Kjartansson fiskaði vítaspyrnu á 55. mínútu sem hann skoraði sjálfur úr og skömmu síðar átti hann skot í stöng.

Þegar rúmar tíu mínútur voru eftir gátu KA-menn síðan tryggt sér sigurinn þegar þeir fengu vítaspyrnu en Jóhann Ólafur Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og varði frá Hallgrím Steingrímssyni.

Lokatölur urðu því 1-1 og Selfoss komið með fjögur stig í riðlinum en þetta var fyrsta stig KA.

Joe Tillen spilaði sinn fyrsta leik í búningi Selfoss í dag og var einn af bestu mönnum vallarins. Á stuðningsmannavef Selfoss kemur fram að fyrsti Senegalinn komi til landsins á morgun og aðrir tveir í vikunni. Allir ættu þeir að vera til í slaginn gegn Gróttu í Lengjubikarnum nk. laugardag.