Ægir heimsótti Gróttu í 2. deild karla í knattspyrnu á Seltjarnarnesið í dag. Fyrir leikinn var Ægir í toppsætinu en Grótta í 3. sæti og því mikið í húfi fyrir bæði lið.
Jordan Adeyemo kom Ægismönnum yfir á 12. mínútu en Grótta jafnaði metin um miðjan fyrri hálfleikinn. Adeyemo var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar og staðan var 1-2 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var í járnum en á 70. mínútu fengu Ægismenn vítaspyrnu og úr henni skoraði Bjarki Rúnar Jónínuson. Grótta sótti í sig veðrið á lokakaflanum og þeir minnkuðu muninn í 2-3 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Það var svo á fjórðu mínútu uppbótartímans að Grótta skoraði jöfnunarmarkið og lokatölur urðu 3-3.
Þróttur Vogum vann öruggan sigur á Haukum í dag og endurheimti því toppsætið í 2. deildinni. Þróttur er með 18 stig, Ægir í 2. sæti með 17 stig og Grótta í 3. sæti með 15 stig.

