Jöfnunarmark í uppbótartíma á Stokkseyri

Jón Jökull Þráinsson skoraði fyrir Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyri náði að knýja fram jafntefli með marki í uppbótartíma þegar RB kom í heimsókn á Stokkseyrarvöll í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Heimamenn voru ekki að finna taktinn í fyrri hálfleiknum og gestirnir komust í 0-2 þegar 24 mínútur voru liðnar af leiknum og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Eftir góða hálfleiksræðu Rúnars Birgissonar, þjálfara, var allt annað að sjá til Stokkseyringa í seinni hálfleiknum. Gunnar Bjarni Oddsson minnkaði muninn á fyrstu mínútu seinni hálfleiks og þremur mínútum síðar fékk leikmaður RB rautt spjald fyrir að heilsa Jóni Jökli Þráinssyni að sjómannasið.

Manni fleiri leituðu Stokkseyringar að jöfnunarmarkinu en það var ekki fyrr en á fimmtu mínútu uppbótartímans að Jóni Jökli tókst að launa RB mönnum lambið gráa og koma boltanum í netið.

Lokatölur 2-2 en úrslitin lyfta Stokkseyringum ekkert upp töfluna. Þeir eru áfram í 7. sæti riðilsins með 5 stig.

Fyrri greinAukin rafleiðni í Jökulsá á Sólheimasandi
Næsta greinNý Hamarshöll úr „föstum efnum“ sett á teikniborðið