Jöfn og spennandi keppni í Suðurlandsdeildinni

Matthías Kjartansson og Aron frá Þóreyjarnúpi sem sigruðu flokk atvinnumanna og kepptu fyrir lið Vesturkots. Ljósmynd/Óðinn Örn Jóhannsson

Eftir jafna og feykisterka keppni í fjórgangi ZO-ON í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum í gærkvöldi, voru það lið Byko og lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sem voru jöfn að stigum og stóðu uppi sem sigurvegarar kvöldsins.

Matthías Kjartansson og Aron frá Þóreyjarnúpi urðu efstir í flokki atvinnumanna með einkunnina 7,40 en þeir keppa fyrir lið Vesturkots. Hjá áhugamönnunum urðu Birna Olivia Ödqvist á Hraunari frá Vorsabæ II og Sævar Örn Sigurvinsson á Huld frá Arabæ jöfn í 1.-2. sæti með einkunnina 6,97. Birna keppir fyrir lið Nonnenmacher en Sævar fyrir lið Byko.

Staðan í liðakeppninni eftir tvö fyrstu keppniskvöldin er þannig að BYKO leiðir með 190,5 stig, þá kemur Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún með 170,5 stig og í 3. sæti er lið Krappa með 164,5 stig. Lið Nonnenmacher og Smiðjunnar Brugghúss eru svo skammt undan í 4. og 5. sæti.

Næsta keppniskvöld í Suðurlandsdeildinni er þriðjudaginn 29. mars en þá verður keppt í fimmgangi.

Fyrri greinÞrír Rangæingar semja við Selfoss
Næsta greinVegum verður jafnvel lokað