Selfyssingurinn Janus Daði Smárason var valinn maður leiksins þegar Ísland valtaði yfir Ítalíu á fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í handbolta í Kristianstad í Svíþjóð í dag.
Ísland vann öruggan sigur, 39-26. Leikurinn var í járnum fyrstu tíu mínúturnar en þá small allt saman hjá íslenska liðinu sem stakk ítölsku folana af. Staðan í hálfleik var 21-12.
Janus Daði var markahæstur Íslendinga með 8 mörk, Ómar Ingi Magnússon skoraði 6/4, Bjarki Már Elísson 4, Elvar Örn Jónsson 2 og þeir Haukur Þrastarson og Teitur Örn Einarsson skoruðu 1 mark hvor.
„Það var fínt flæði í þessu hjá okkur. Við erum með fullt af flinkum handboltamönnum. Þegar við slökum á og förum að spila okkar bolta erum við mjög góðir,“ sagði Janus í samtali við mbl.is eftir leik.
Næsti leikur Íslands er gegn Póllandi kl. 17 á sunnudaginn.

