Jana Lind Íþróttamaður Garps

Glímukonan Jana Lind Ellertsdóttir var valin íþróttamaður Íþróttafélagsins Garps árið 2017 en valið var kunngjört á aðalfundi félagsins á dögunum.

Þetta er í fjórða sinn sem hún hlýtur titilinn. Jana Lind stóð sig frábærlega á árinu og vann fjölda titla á árinu í fullorðinsflokki, en hún er orðin ein öflugasta glímukona landsins. Félagið útnefndi einnig íþróttamenn greina, Jana var valin glímumaður ársins og Veigar Þór Víðisson var valinn frjálsíþróttamaður ársins, en hann er margfaldur héraðs- og Íslandsmeistari í sínum aldursflokki.

Aðalfundurinn var haldinn á Laugalandi þann 20. mars síðastliðinn og mættu um 40 manns á fundinn.

Ein breyting varð á stjórn félagsins, Erlingur Jensson gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Árni Pálsson kosinn í hans stað. Stjórn félagsins skipa Jóhanna Hlöðversdóttir formaður, Friðgerður Guðnadóttir gjaldkeri, Árni Pálsson, Birgir Örn Hauksson og Guðný Salvör Hannesdóttir.

Fjárhagur félagsins er traustur. Munar þar mestu um einstaka fjáröflun sem Guðni Guðmundsson á Þverlæk hefur eins síns liðs staðið að um árabil. Guðni, sem verður 85 ára í ár, færði félaginu samtals kr. 1.429.900 kr. vegna dósasöfnunar á liðnu ári. Þetta eru hvorki meira en minna en 46% af heildartekjum félagsins á liðnu ári.

Fyrri grein#metoo bylting og aðgerðir ræddar á héraðsþingi HSK
Næsta greinAfhentu Tækniskólanum veglega gjöf