Jafntefli í spennuleik á Nesinu

Atli Ævar Ingólfsson skoraði sjö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Grótta skildu jöfn, 32-32, í Olísdeild karla í handbolta á Seltjarnarnesi í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og úrslitin réðust á síðustu sekúndunum.

Selfyssingar náðu fljótlega tveggja marka forystu sem þeir héldu lengst af fyrri hálfleik. Gróttumenn voru hins vegar sterkir á lokakafla fyrri hálfleiks, skoruðu tvö síðustu mörkin og leiddu 18-16 í leikhléi.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Selfoss fjögur fyrstu mörkin og náði aftur forystunni. Þeir voru skrefinu á undan fyrsta korterið, en þá sneri Grótta leiknum sér í vil og hafði frumkvæðið nánast það sem eftir lifði leiks. Vilius Rasimas varði mikilvægt skot á lokamínútunni í stöðunni 31-31 og Hergeir Grímsson kom Selfossi í 31-32 þegar fjórtán sekúndur voru eftir. Grótta tók leikhlé og náði í kjölfarið að nýta síðustu sóknina og jafna þegar sex sekúndur lifðu leiks.

Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 5, Ísak Gústafsson og Tryggvi Þórisson 4, Einar Sverrisson 4/1 og þeir Hergeir Grímsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Ragnar Jóhannsson skoruðu allir 3 mörk.

Vilius Rasimas varði 7/1 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 3 skot og var með 25% markvörslu.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 18 stig, en Grótta er í 10. sæti með 10 stig.

Fyrri greinFyrstu stig Selfoss í Lengjunni
Næsta greinSamið um tilraunaverkefni um snjallar úrgangslausnir