Jafntefli í snjóbolta á Selfossi

Selfoss og KR skildu jöfn í A-deild Lengjubikars karla í knatttspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Það snjóaði duglega í fyrri hálfleik svo gæði leiksins voru lítil en lokatölur urðu 1-1.

KR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu nokkur álitleg færi áður en Gary Martin kom þeim yfir eftir snarpa sókn á 37. mínútu. Selfyssingar fengu nokkur hálffæri en Luka Jagacic var þó nálægt því að skora strax á 1. mínútu en skaut framhjá af stuttu færi.

Það var allt annað að sjá til Selfossliðsins í seinni hálfleik eftir þrumuræðu Zorans þjálfara. KR-ingar voru samt sterkari aðilinn áfram en Selfoss átti fínar sóknir inn á milli og úr einni slíkri skoraði Svavar Berg Jóhannsson á 57. mínútu eftir góðan undirbúning Elton Barros.

Selfossvörnin sá við öllum sóknum KR í seinni hálfleik og þeir vínrauðu hefðu getað stolið sigrinum þegar Magnús Ingi Einarsson slapp innfyrir en Stefán Magnússon, markvörður KR, sá við honum.

Þetta var síðasti leikur Selfoss í Lengjubikarnum en liðið er nú í 6. sæti riðilsins með 8 stig.

Í B-deildinni mætti Ægir Njarðvík í Reykjaneshöllinni. Lokatölur þar urðu 2-1 en öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Njarðvík fékk víti í upphafi leiks og komst þá yfir en Þorkell Þráinsson jafnaði á 19. mínútu fyrir Ægi. Sigurmark Njarðvíkur kom fimm mínútum síðar og þar við sat. Ægir er í 3. sæti riðilsins með 6 stig en Njarðvík á toppnum með 10 stig.

Fyrri greinViðbrögð leikmanna: „Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu“
Næsta greinBanaslys á Biskupstungnabraut