Jafntefli í roki og rigningu

Guðmundur Tyrfingsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Njarðvík í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld í roki og rigningu á Reykjanesinu.

Það tók Selfyssinga nokkra stund að venjast aðstæðunum en þeir voru þó fyrri til að skora. Guðmundur Tyrfingsson kom boltanum í netið á 17. mínútu þegar hann fylgdi á eftir skoti frá Gary Martin.

Selfyssingar fengu gott færi til að komast í 0-2 undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi seinni hálfleiks voru Selfyssingar til alls líklegir en gekk illa að binda endahnútinn á sóknirnar.

Bæði lið fengu prýðileg færi á lokakafla leiksins en sex mínútum fyrir leikslok náði Luqman Hakim að jafna metin fyrir Njarðvík, boltinn barst fyrir markið og Hakim var óvaldaður á fjærstönginni.

Lokatölur 1-1 og Selfoss er áfram í 4. sætinu, nú með 10 stig en Njarðvík er í 7. sæti með 6 stig.

„Við köstuðum tveim stigum frá okkur fannst mér,“ sagði Dean Martin þjálfari Selfoss í viðtali við fotbolti.net eftir leikinn í kvöld.

Fyrri greinForeldrafélagið kom færandi hendi
Næsta greinKÁ hafði betur í vatnsslagnum