Jafntefli í lokaumferð deildarinnar

Selfoss og Fylkir skildu jöfn, 22-22, í lokaumferð Olís-deildar kvenna í handbolta í dag. Selfoss lauk því keppni í 10. sæti deildarinnar með 10 stig.

Fylkir var skrefinu á undan allan fyrri hálfleik en munurinn var þó ekki nema eitt mark lengst af. Gestirnir náðu 1-4 leikkafla undir lok hálfleiksins og breyttu stöðunni úr 7-8 í 8-12 en staðan var 9-12 í leikhléi.

Selfyssingar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og jöfnuðu 13-13 á fyrstu fimm mínútunum. Þá náði Fylkir aftur forystu en munurinn var lítill og þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 19-21.

Selfyssingar náðu hins vegar að jafna leikinn af miklu harðfylgi, en Þuríður Guðjónsdóttir jafnaði 22-22 þegar tæp mínúta var eftir. Fylkisliðið hélt boltanum til leiksloka án þess að ná að skora en Áslaug Ýr Bragadóttir varði tvisvar vel á lokamínútunni.

Þuríður var markahæst Selfyssinga með 11 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 6/3, Carmen Palamariu 2 og þær Kara Rún Árnadóttir, Hildur Öder Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu allar eitt mark.

Áslaug varði 16 skot og var með 43,2% markvörslu. Meðal annars átti hún tvær mikilvægar vörslur á lokamínútunni sem tryggðu Selfyssingum jafnteflið.

Fyrri greinÞyrla sótti slasaðan vélsleðamann
Næsta greinSveinn leiðir lista framfarasinna í Ölfusi