Jafntefli í lokaleik

KFR heimsótti Skautafélagið Björninn í lokaumferð 3. deildar karla í kvöld og skildu liðin jöfn, 2-2, en þjálfari KFR endaði kvöldið á sjúkrahúsi.

Leikurinn var jafn allan tímann en það voru Rangæingar sem komust yfir í fyrri hálfleik og var þar að verki Þórhallur Lárusson.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Bjarnarmenn byrjuðu síðari hálfleik betur og skoruðu tvö mörk.

Vésteinn Gauti Hauksson, þjálfari KFR, kom inná sem varamaður í síðari hálfleik og skoraði jöfnunarmarkið þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum.

Á lokakaflanum lenti Vésteinn svo í samstuði við leikmann Bjarnarins og var fluttur burt með sjúkrabíl en talið er að hann hafi ökklabrotnað.

Þetta var síðasti leikur KFR í sumar en liðið lauk keppni í A-riðli með 7 stig í 7. sæti riðilsins.