Jafntefli í hörkuleik gegn Gróttu

Karlalið Selfoss í handbolta lék sinn fyrsta heimaleik í 1. deildinni í kvöld þegar Grótta kom í heimsókn. Eftir hörkuleik náðu Selfyssingar að knýja fram jafntefli, 25-25.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og staðan var 6-5 eftir 10 mínútna leik. Á næstu mínútum slakaði vörn Selfoss fullmikið á og náði Grótta þriggja marka forystu 6-9. Selfoss gekk illa að skora í fyrri hálfleik var og oft mikið um klaufaleg mistök. Selfyssingar náðu sóknarleiknum upp undir lok fyrri hálfleiks og skoraði sex mörk á síðustu tíu mínútunum en staðan var 13-14 í hálfleik.

Grótta byrjaði seinni hálfleikinn með látum en Selfyssingar fylgdu þeim eftir og þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 16-18. Þá hrukku Selfyssingar loksins í gang og komust yfir á fimm mínútna kafla, 20-19 og þegar tíu mínútur voru eftir var staðan 23-20.

Þá kom bakslag í sóknarleik Selfoss og illa gekk að skora, Grótta gekk á lagið og komst yfir 24-25 þegar 50 sekúndur voru til leiksloka. Selfoss fór því marki undir í síðustu sókn leiksins, Andri Hrafn Hallsson fékk mjög þröngt færi í hægra horninu og skaut á markið. Það var hinsvegar brotið á honum og dæmt víti þegar 10 sekúndur voru eftir. Einar Sverrisson steig á punktinn og var svellkaldur og skoraði jöfnunarmarkið 25-25. Leiktíminn rann svo út þegar Grótta reyndi að taka miðju.

Matthías Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með átta mörk, Einar Sverrisson skoraði fimm, Andri Hrafn Hallsson fjögur, Hörður Másson þrjú, Sverrir Pálsson tvö og þeir Örn Þrastarson, Magnús Már Magnússon og Ómar Ingi Magnússon skoruðu allir eitt mark.

Fyrri greinFjóla Signý og Egill heiðruð
Næsta greinPáll Jökull sýnir landslagsmyndir