Knattspyrnufélag Árborgar heimsótti Álftanes í toppslag C-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu á Bessastaðavöll í kvöld.
Það var hart barist í leiknum sem var markalaus allt fram á 71. mínútu að heimamenn komust yfir. Árborgarar lögðu þó ekki árar í bát og uppskáru jöfnunarmark á 87. mínútu en þar var að verki Hartmann Antonsson eftir sendingu frá Antoni Inga Sigurðarsyni.
Þar við sat, lokatölur 1-1, og hvorugu liðinu tókst að ná toppsætinu af KFS. Eyjamenn hafa 15 stig í 1. sæti en þar á eftir koma Álftanes og Árborg með 13 stig, en Álftnesingar hafa betra markahlutfall.