Jafntefli í fyrsta leik Bjarna

Valdimar Jóhannsson sækir að marki Víðis í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar léku sinn fyrsta opinbera knattspyrnuleik undir stjórn nýs þjálfara, Bjarna Jóhannssonar, þegar liðið tók á móti Víði Garði í 1. umferð deildarbikarsins á Selfossvelli í dag.

Alfredo Ivan Arguello kom Selfyssingum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Víðismenn jöfnuðu metin tíu mínútum síðar. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleiknum. Valdimar Jóhannsson kom Selfyssingum aftur yfir á 61. mínútu en rúmum tíu mínútum síðar jöfnuðu Víðismenn aftur. Mörkin urðu ekki fleiri og liðin skiptu með sér stigunum, 2-2.

Selfoss og Víðir leika í riðli-1 í B-deildinni ásamt Augnabliki, Haukum, Reyni Sandgerði og ÍH. Næsti leikur Selfyssinga er að viku liðinni, heimaleikur gegn Augnabliki sem situr á toppi riðilsins eftir fyrstu umferðina.

Fyrri greinSkyldi vera hægt að kaupa kosningaúrslit?
Næsta greinTindur ráðinn þjálfari Uppsveita