Jafntefli hjá Hamri – Ægir vann góðan sigur

Hamar mætti Vatnaliljunum í 4. deild karla í knattspyrnu í dag og á sama tíma mættust Einherji og KFR í 3. deildinni. Ægir vann góðan sigur í gær.

Hamar gerði 2-2 jafntefli við Vatnaliljurnar í 4. deildinni í dag. Páll Pálmason kom Hamri yfir á 29. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Vatnaliljurnar jöfnuðu metin strax í upphafi síðari hálfleiks en Daníel Rögnvaldsson kom Hamri yfir aftur á 56. mínútu. Heimamenn náðu svo að jafna aftur með marki úr vítaspyrnu á 76. mínútu og þar við sat, þrátt fyrir ágætar sóknir Hamars í lokin.

Í 3. deildinni sótti KFR Einherja heim á Vopnafjörð. Einherji skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu og KFR er áfram í fallsæti með 4 stig.

Í gær unnu Ægismenn mikilvægan sigur á Sindra á útivelli. Sindri komst yfir í fyrri hálfleik en Eiríkur Ari Eiríksson jafnaði metin á 61. mínútu og Þorkell Þráinsson tryggði Ægi sigur í uppbótartíma. Þrátt fyrir sigurinn er Ægir enn í fallsæti með 11 stig.

Fyrri greinSelfoss sótti stig á Reyðarfjörð
Næsta greinFjölskylduhátíðin á Úlfljótsvatni um verslunarmanna-helgina