Jafnt í toppslagnum

Tinna Sigurrós skoraði 14 mörk í dag, helming marka Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti FH í uppgjöri tveggja efstu liðanna í 1. deild kvenna í handbolta á Selfossi í dag. Niðurstaðan varð jafntefli eftir hörkuleik, 28-28.

Það var jafnt á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik, upp í 8-8, en þá náðu FH-ingar tveggja marka forystu. Selfoss jafnaði 10-10 en gestirnir náðu aftur að slíta sig frá þeim og leiddu 14-16 í leikhléi.

Selfoss skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og jafnaði 16-16. Eftir það var leikurinn í járnum, FH var á undan að skora og var skrefinu á undan megnið af seinni hálfleiknum en á síðustu tíu mínútunum snerist taflið við og Selfoss tók frumkvæðið.

Munurinn var þó aldrei meiri en eitt mark og þegar 20 sekúndur voru eftir kom Elín Krista Sigurðardóttir Selfossi í 28-27. Roberta Stropus hindraði svo aukakast FH-inga þegar fimm sekúndur voru eftir, þannig að hún fékk rauða spjaldið og FH vítakast, sem þær skoruðu jöfnunarmarkið úr.

Tinna Sigurrós Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Elín Krista Sigurðardóttir skoraði 5, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Kristín Una Hólmarsdóttir og Roberta Strope 3 og þær Tinna Soffía Traustadóttir og Katla Björk Ómarsdóttir skoruðu báðar 2 mörk.

Mina Mandić varði 15 skot í marki Selfoss og var með 37% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 1 skot og var með 50% markvörslu.

FH er áfram í toppsæti deildarinnar með 10 stig en Selfoss er í 2. sæti með 9 stig og á leik til góða.

Fyrri greinHamar-Þór öflugar á útivelli
Næsta greinSelfyssingar völtuðu yfir nýliðana