Jafnt í Suðurlandsslagnum – Uppsveitir fengu skell

Torfi Már Markússon og Haukur Ingi Gunnarsson í baráttunni um boltann á Grýluvelli í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Árborg skildu jöfn í 4. deild karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld á meðan Uppsveitir töpuðu stórt gegn Vængjum Júpíters á útivelli.

Það var hart barist á Grýluvelli. Hamarsmenn fengu vítaspyrnu á fyrstu mínútu leiksins eftir brot í vítateig Árborgar og úr henni skoraði Rodrigo Depetris. Fyrri hálfleikur var jafn og kappið bar fegurðina ofurliði á löngum köflum. Ingi Rafn Ingibergsson jafnaði fyrir Árborg á 25. mínútu með fallegu marki og staðan var 1-1 í hálfleik. Leikplan Hamarsmanna gekk upp í seinni hálfleik þeir lágu aftarlega og færðu vörnina vel og Árborg fann ekki leiðina upp að marki þeirra. Á lokakaflanum opnaðist leikurinn aðeins og bæði lið fengu góð færi en markverðirnir, Pétur Logi Pétursson hjá Hamri og Stefán Blær Jóhannsson hjá Árborg, sáu til þess að mörkin urðu ekki fleiri.

Uppsveitir heimsóttu Vængi Júpíters í Egilshöllina. Vængirnir voru sterkari í kvöld, þeir komust yfir eftir þriggja mínútna leik með marki frá Almari Mána Þórissyni og á eftir fylgdu tvö mörk til viðbótar frá Sigurði Arnþórssyni. Staðan var 3-0 í hálfleik en George Razvan minnkaði muninn fyrir Uppsveitir á upphafssekúndum seinni hálfleiks, nýkominn inná sem varamaður. Það reyndist eina framlag Uppsveitamanna í kvöld því Aron Heimisson, Óskar Jónasson og Aron Símonarson bættu allir við mörkum fyrir Vængina sem unnu öruggan 6-1 sigur.

Staða sunnlensku liðanna í 4. deildinni er þannig eftir þrjár umferðir að Árborg er í 2. sæti með 7 stig, Hamar í 3. sæti með 7 stig en Uppsveitir eru í 10. sætinu án stiga.

Fyrri greinKlippt á borða á nýja Suðurlandsveginum
Næsta greinMikill meirihluti hlynntur breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss