Jafnt í Suðurlandsslagnum – Fyrsti sigur Stokkseyrar

Ágúst Marel Gunnarsson og Ævar Már Viktorsson berjast um boltann í Hveragerði í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og KFR skildu jöfn í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld í hörkuleik á Grýluvelli. Á Stokkseyri var Afríka í heimsókn og þar hafði Stokkseyri sigur.

Leikur Hamars og KFR var jafn og spennandi. Bjarni Þorvaldsson kom KFR yfir á 22. mínútu en markmenn liðanna komu í veg fyrir að mörkin yrðu fleiri í fyrri hálfleik. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og Rúnar Þorvaldsson tvöfaldaði forskot KFR með marki eftir hornspyrnu á 58. mínútu. Hamarsmenn tóku miðju og brunuðu fram völlinn þar sem Atli Þór Jónasson batt endahnútinn á sóknina með marki. Bæði lið áttu álitlegar sóknir á lokakaflanum en Hamri tókst að jafna metin á 82. mínútu og þar var að verki Daninn Sören Balsgaard. Lokatölur urðu 2-2 og liðin því bæði með 8 stig í 3.-4. sæti D-riðilsins.

Tvö rauð á Stokkseyri
Stokkseyri tók á móti Afríku í hörkuleik. Jón Jökull Þráinsson kom heimamönnum yfir á 12. mínútu en Afríka jafnaði þremur mínútum síðar. Þá var komið að Þórhalli Aroni Mássyni, sem skoraði á 37. mínútu en aftur liðu þrjár mínútur þangað til Afríka jafnaði og staðan var 2-2 í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks fékk aftasti varnarmaður Afríku rauða spjaldið fyrir brot en þrátt fyrir það var leikurinn áfram í járnum. Á 62. mínútu sýndi Rúnar Birgisson, þjálfari Stokkseyrar, taktíska snilli sína þegar hann setti Sigurð Frey Sigurvinsson inná völlinn. Sigurður er sannkallaður ofurvaramaður og hann sneri leiknum Stokkseyringum í vil með tveimur mörkum á fjórum mínútum, þegar hann var nýkominn inná. Afríka minnkaði muninn í 4-3 á 68. mínútu og eftir að hafa sótt boltann í netið fékk markaskorari Afríku að líta rauða spjaldið eftir árekstur við Stokkseyring og því spiluðu gestirnir níu á móti ellefu í tæpan hálftíma. Leikurinn fjaraði hratt út eftir þetta, Stokkseyringar náðu ekki að nýta sér liðsmuninn fyrr en í uppbótartímanum þegar Hákon Logi Stefánsson skoraði glæsilegt skallamark og tryggði Stokkseyri 5-3 sigur.

Þetta var fyrsti sigur Stokkseyringa í sumar og sitja þeir í 7. sæti B-riðils með 3 stig en Afríka er á botninum án stiga.

Sigurður Freyr Sigurvinsson tryggði Stokkseyringum sigurinn með tveimur mörkum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGul viðvörun á fimmtudag
Næsta greinHaldið upp á sjómannadaginn á Eyrarbakka