Jafnt í fjörugum leik á Selfossi

Brenna Lovera skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Selfoss og Þróttur gerðu 2-2 jafntefli í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Þó að uppskeran hafi bara verið eitt stig þá var allt annað að sjá til Selfyssinga í kvöld miðað við síðustu leiki í deildinni. Þær spiluðu af miklum krafti, sérstaklega í fyrri hálfleik, og tefldu djarft bæði í vörn og sókn.

Brenna Lovera kom Selfyssingum yfir á 12. mínútu eftir góða sendingu innfyrir frá Susanna Friedrichs en Þróttarar jöfnuðu metin uppúr aukaspyrnu með bókstaflega síðustu snertingu fyrri hálfleiks.

Staðan var 1-1 í leikhléi en þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Brenna Lovera stórkostlegt mark. Hún fékk boltann frá Caity Heap á miðjum vallarhelmingi Þróttar og geystist upp að vítateignum þar sem þrír varnarmenn mættu henni. Hún lét bara vaða og þrumaði boltanum upp í samskeytin.

Selfoss hafði góð tök á leiknum í framhaldinu en undir lokin þyngdust sóknir Þróttara og þær uppskáru jöfnunarmark á 83. mínútu. Þróttarar sóttu meira á lokakaflanum en mörkin urðu ekki fleiri og bæði lið voru sæmilega sátt við eitt stig.

Selfoss og Þróttur eru áfram í 4.-5. sæti deildarinnar, nú með 19 stig, en Þróttur á leik til góða á Selfoss.

Fyrri greinViðburðarík vika hjá lögreglunni
Næsta greinLeitað við Ölfusá eftir að bakpoki fannst á bakkanum