Jafnt í Breiðholtinu

Selfoss og Leiknir skildu jöfn, 1-1, þegar þau mættust á Leiknisvelli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin börðust af hörku í 90 mínútur og áttu bæði fín færi til að taka öll þrjú stigin sem í boði voru.

Leiknismenn komust yfir á 10. mínútu og þannig var staðan allt fram á 30. mínútu að Viðar Örn Kjartansson jafnaði leikinn eftir góðan undirbúning frá Einari Ottó Antonssyni.

Staðan var 1-1 í hálfleik og þó að síðari hálfleikur hafi verið markalaus var hann síður en svo tíðindalítill. Selfyssingar áttu þrjár ágætar marktilraunir en síðustu tíu mínúturnar áttu Leiknismenn tvær hættulegar sóknir og voru nálægt því að skora í bæði skiptin.

Selfoss fékk síðustu færi leiksins en Eyjólfur Tómasson, markvörður Leiknis, sem var besti maður vallarins sá við bæði Viðari Erni og Babacar Sarr.

Eftir úrslit dagsins falla Selfyssingar niður um tvö sæti á stigatöflunni og eru í 9. sæti með 4 stig að loknum fjórum umferðum.