Jafnt hjá Árborg í hörkuleik

Knattspyrnufélag Árborgar og Knattspyrnufélag Hlíðarenda gerðu 3-3 jafntefli í 4. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Jöfnunarmark KH kom á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Árborgarar byrjuðu betur og Ingimar Helgi Finnsson átti stangarskot strax á 8. mínútu. Um miðjan fyrri hálfleik þyngdust sóknir Árborgar nokkuð og því var það töluvert gegn gangi leiksins að gestirnir komust yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu á 37. mínútu. Tveimur mínútum síðar jafnaði Hartmann Antonsson með góðum skalla og staðan var 1-1 í hálfleik.

Tómas Kjartansson kom Árborg yfir á 60. mínútu með glæsilegu skallamarki en tíu mínútum síðar jöfnuðu gestirnir uppúr hornspyrnu og leikurinn í járnum.

Gestirnir sóttu meira undir lokin en á 79. mínútu fengu Árborgarar vítaspyrnu þegar brotið var á Pálma Ásbergssyni. Eiríkur Elvy fór á vítapunktinn og hamraði boltann í netið.

KH sótti stíft á lokamínútunum og Árborgarar féllu djúpt til baka. Það kunni ekki góðri lukku að stýra og jöfnunarmark gestanna lá í loftinu. Það kom síðan á 94. mínútu, enn og aftur eftir fast leikatriði – aukaspyrnu og gríðarlegt klafs í teignum þar sem Árborgurum tókst ekki að hreinsa frá.

Þetta var fyrsti leikur Árborgar í riðlinum en liðið mætir næst Mána á Hornafirði, næstkomandi laugardag.

Helstu atvikin úr leiknum má sjá hér að neðan: