Jafnt gegn meisturunum í lokaumferðinni

Unnur Dóra Bergsdóttir, fyrirliði Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Íslandsmeistara Vals á Hlíðarenda í lokaumferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

„Þetta var frá­bær­lega spilaður leik­ur af okk­ar hálfu. Við spiluðum vel varn­ar­lega og vor­um að skapa hættu sókn­ar­lega, þannig að ég er mjög ánægður með okk­ar frammistöðu,“ sagði Björn Sig­ur­björns­son, þjálf­ari Sel­foss, í sam­tali við sunnlenska.is eft­ir leik.

„Við klár­um mótið vel, erum tap­laus í síðustu sjö leikj­um og erum mjög ánægð með sum­arið. Það hef­ur verið stíg­andi í þessu og það er það sem er aðal málið. Deildin er að jafn­ast ræki­lega út og ég held að þetta verði ennþá jafn­ara og skemmti­legra á næsta ári og von­andi verðum við þá annað af topp tveim­ur liðunum,“ sagði Björn að ennfremur.

Fínar sóknir Selfyssinga
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og ekki að sjá að liðin væru komin í vetrarfrí í huganum. Selfoss byrjaði leikinn mjög vel en bjó ekki til mörg færi. Valur sótti í sig veðrið á lokakafla fyrri hálfleiks en bæði lið fengu fín marktækifæri og á 34. mínútu skallaði Bergrós Ásgeirsdóttir rétt framhjá marki Vals.

Staðan var 0-0 í hálfleik og Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Á 55. mínútu braut fyrirliðinn Unnur Dóra Bergsdóttir ísinn eftir hornspyrnu Miröndu Nild. Boltinn hrökk út í teiginn og þar var Unnur Dóra vel staðsett og stýrði boltanum í netið.

Selfyssingar hefðu getað tvöfaldað forystuna skömmu síðar þegar Bergrós átti annan skalla að marki, sem fór rétt yfir. Þess í stað brunuðu Valskonur í sókn, fengu hornspyrnu og upp úr henni skoraði Lára Kristín Pedersen með skoti úr teignum.

Fleiri urðu mörkin ekki. Valskonur voru líklegri á lokakaflanum en Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Sif Atladóttir voru pottþéttar í vörn Selfoss.

5. sætið niðurstaðan
Selfoss lýkur keppni í 5. sæti deildarinnar með 29 stig í nokkuð jöfnum miðjupakka. Valur vann öruggan sigur í deildinni með 43 stig og Stjarnan náði 2. sætinu af Breiðabliki og fær því sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar að ári.

Fyrri greinÞægilegt hjá Selfyssingum – Hamar tapaði naumlega
Næsta greinMikill áhugi á Suðurlandi