Jafnt eftir æsilegar lokamínútur

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu tók á móti FH í Pepsi-deildinni í kvöld. Eftir tíðindalítinn leik tóku liðin sig til og skoruðu fjögur mörk á síðustu fimmtán mínútunum en lokatölur urðu 2-2.

FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og boltinn gekk ekki vel innan Selfossliðsins. FH mætti Selfossliðinu framarlega og heimakonur áttu í stökustu vandræðum með að byggja upp sóknir.

FH fékk fyrsta færi leiksins þegar Heiða Dröfn Antonsdóttir slapp ein innfyrir strax á 3. mínútu en Alexa Gaul varði vel frá henni. Þetta var í raun besta færi fyrri hálfleiks en annars fengu bæði lið hálffæri, FH sínu fleiri.

Á 22. mínútu tók Erna Guðjónsdóttir aukaspyrnu fyrir Selfoss á hægri kantinum, hún sendi góðan bolta yfir til vinstri þar sem Dagný Brynjarsdóttir skallaði að marki en boltinn fór í þverslána. Þremur mínútum síðar var Ana Cate nálægt því að skora fyrir FH þegar hún skallaði hornspyrnu rétt framhjá Selfossmarkinu. Núll núll í hálfleik.

Selfoss byrjaði síðari hálfleikinn með áhlaupi og eftir hornspyrnu á 48. mínútu björguðu FH ingar þrívegis á línu eftir mikinn darraðardans í vítateignum.

Leikurinn datt svo fljótlega í sama farið og í fyrri hálfleik þar sem baráttan fór fram á miðjum vellinum og færin voru fá. FH hélt boltanum ágætlega á köflum en sóknarleikur Selfoss gekk ekki vel en þær vínrauðu reyndu að dæla boltum fram völlinn og láta Guðmundu hlaupa á eftir þeim.

Á 67. mínútu braut Ana Cate illa á Blake Stockton úti á miðjum vellinum. Dómari leiksins gaf FH-ingum hins vegar aukaspyrnuna og boltinn barst inn á vítateig Selfoss þar sem Guðmunda braut klaufalega af sér. FH fékk víti en Alexa Gaul varði örugglega slaka spyrnu frá Cate.

Síðustu fimmtán mínútur leiksins færðist heldur betur fjör í leikinn. Á 76. mínútu komust FH-ingar yfir þegar varamaðurinn Guðrún Björk Eggertsdóttir fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Selfoss. Hún færði sig nær markinu, mundaði skotfótinn og skaut hárfínu skoti í vinstra hornið á Selfossmarkinu, alveg út við stöng. Eitt núll!

Selfyssingar voru greinilega ákveðnar í að jafna og sóknir þeirra báru loks árangur á 84. mínútu. Selfoss fékk þá hornspyrnu sem Dagný skallaði að marki, FH-ingar hreinsuðu á línu en boltinn var greinilega fyrir innan og vel vakandi aðstoðardómari flaggaði mark.

Fimm mínútum síðar átti Guðmunda frábæran sprett fram völlinn og inn í vítateig FH þar sem Maria Haseta brá fyrir hana fæti. Selfoss fékk vítaspyrnu sem Guðmunda afgreiddi sjálf í netið.

Selfoss náði hins vegar ekki að halda út í fjögurra mínútna uppbótartíma því varamaðurinn Elva Ástþórsdóttir jafnaði fyrir FH á 93. mínútu eftir snarpa sókn. Elva fékk sendingu innfyrir vinstra megin og kláraði færið vel. Mínútu síðar flautaði dómarinn leikinn af.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 13 stig og þremur stigum á eftir Breiðablik sem er í 2. sætinu. Næsti leikur liðsins er gegn Val á útivelli næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinMýrdalsjökull skelfur – Sterk fýla af jökulánum
Næsta greinÆgir varð undir í Breiðholtinu