Jafnt þegar einvígið er hálfnað

KFR og KB skildu jöfn, 1-1, í fyrri leik liðanna í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í dag.

Rangæingar byrjuðu betur og Reynir Björgvinsson kom þeim yfir á upphafsmínútunum eftir góða sendingu innfyrir frá Boban Jovic. Eftir það skiptust liðin á að sækja en færin voru ekki mörg. Rangæingar vildu síðan fá vítaspyrnu þegar brotið var á Reyni innan teigs en dómarinn dæmdi ekkert og staðan var 1-0 í hálfleik.

Gestirnir jöfnuðu leikinn snemma í seinni hálfleik með marki Gunnars Wigelund. Eftir það áttu bæði lið álitlegar sóknir, Rangæingar áttu m.a. sláarskot en á lokakaflanum voru gestirnir hættulegri í sóknaraðgerðum sínum.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og úrslitin munu ráðast í síðari leik liðanna sem fram fer á Leiknisvelli í Breiðholti kl. 20 á miðvikudagskvöld.