Ívar sigraði en Snorri fékk silfur

Selfyssingurinn Ívar Guðmundsson sigraði örugglega í götubílaflokki á Sindratorfæru Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu sem haldin var þann 1. maí.

Ívar, sem er núverandi Íslandsmeistari í flokknum, sigraði með 1.783 stig, 318 stigum á undan Steingrími Bjarnasyni. Eðvald Orri Guðmundsson varð þriðji á Pjakknum með 1.040 stig.

Íslandsmeistarinn úr Ölfusinu, Snorri Þór Árnason, varð hins vegar að gera sér annað sætið að góðu í sérútbúna flokknum eftir hörkukeppni. Aðeins munaði fimmtán stigum á honum og Elmari Guðmundssyni sem sigraði í flokknum. Magnús Sigurðsson varð þriðji á Kubbnum og Hreppamaðurinn Leó Viðar Björnsson fjórði á Iron Maiden.

Í flokki sérútbúinna götubíla sigraði Bjarki Reynisson en Sigfús Gunnar Benediktsson komst ekki af stað á Hlunknum og hóf ekki keppni.

Á laugardeginum var svo 50 ára afmæli torfærunnar á Íslandi fagnað með frábærum tilþrifum þegar gamlar kempur úr sportinu mættu til leiks og þöndu tryllitækin. Auk þess fór fram fleytingakeppni á ánni þar sem torfærubílar, sleðar og hjól öttu kappi, áhorfendum til mikillar gleði.

Að sögn Kára Rafns Þorbergssonar, keppnisstjóra, gekk helgin frábærlega fyrir sig. Um 2.600 manns mættu á svæðið á laugardeginum og 2.300 á laugardeginum. „Það gekk allt upp og allir eru í skýjunum með helgina,“ sagði Kári Rafn í samtali við sunnlenska.is.

Hér að neðan eru helstu tilþrifin úr keppninni á myndbandi frá Jakobi Cecil Hafsteinssyni og þar fyrir neðan eru úrslitin úr keppninni og myndir af sunnlensku verðlaunahöfunum.

Úrslitin á Hellu
Sérútbúnir Götubílar

1. Bjarki Reynisson Dýrið 1.501 stig
2. Jón Vilberg Gunnarsson Snáðinn 1.256 stig
3. Aron Ingi Svansson Zombie 1.100 stig
4. Sigfús Gunnar Benediktsson Hlunkurinn 0 stig

Sérútbúnir
1. Elmar Jón Guðmundsson Heimasætan 1.395 stig
2. Snorri Þór Árnason Kórdrengurinn 1.380 stig
3. Magnús Sigurðsson Kubbur 1.291 stig
4. Leó Viðar Björnsson Iron Maiden 992 stig
5. Svanur Örn Tómasson Insane 969 stig
6. Ólafur Bragi Jónsson Tímaur 900 stig
7. Ingólfur Guðvarðarson Guttinn Reborn 890 stig
8. Guðbjörn Grímsson Katla Túrbo tröll 885 stig
9. Gestur J Ingólfsson Draumurinn 720 stig
10. Þór Þormar Pálsson Spiderman 340 stig
11. Haukur Einarsson Taz 315 stig
12. Valdimar Jón Sveinsson Crash Hard 0 stig

Götubílar
1. Ívar Guðmundsson Kölski 1.783 stig
2. Steingrímur Bjarnason Strumpurinn 1.465 stig
3. Eðvald Orri Guðmundsson Pjakkurinn 1.040 stig
4. Haukur Birgisson Þeytingur 1.025 stig


Kórdrengurinn í flugtaki. sunnlenska.is/Brynja Rut Borgarsdóttir


Ívar uppskar sigur eftir öruggan akstur. sunnlenska.is/Brynja Rut Borgarsdóttir


Pjakkurinn í baði. sunnlenska.is/Brynja Rut Borgarsdóttir

Fyrri greinVel heppnað kvennamót á Hellu
Næsta greinSindri Pálma aftur í Selfoss