Ívar sigraði og fékk Greifanafnbótina

Ívar Greifi Guðmundsson sigraði í götubílaflokknum á seinni degi Greifatorfærunnar sem fram fór á Akureyri á sunnudaginn. Sunnlendingar voru hársbreidd frá Íslandsmeistaratitlum í báðum flokkum.

Keppni sunnudagsins var ekki síður tilþrifamikil en keppnin á laugardeginum.

Ívar sigraði örugglega í götubílaflokknum á Kölska en hann hafði tryggt sér sigurinn fyrir síðustu brautina. Í modified flokknum hampaði Ólafur V. Björnsson bikarnum fyrir þriðja sætið en hann ók Jóker Hauks Þorvaldssonar í fyrsta sinn í keppni.

Í unlimited flokknum börðust Hafsteinn Þorvaldsson og Gísli Gunnar Jónsson um annað og þriðja sætið en Ólafur Bragi Jónsson var með gullið í höndum sér nær alla keppnina.

Benedikt Sigfússon á Hlunknum rétt missti af Íslandsmeistaratitlinum en hann var í efsta sæti stigakeppninnar fyrir lokaumferðina. Milliheddspakkning gaf sig í Hlunknum svo að hann missti af einni braut og titlinum í leiðinni. Benedikt varð níundi af íslensku keppendunum á sunnudeginum og fékk aðeins tvö stig fyrir það. Ólafur Bragi sem sigraði í báðum keppnum helgarinnar í sérútbúna flokknum varð Íslandsmeistari með 40 stig en Benedikt fékk 38 stig. Í næstu sætum á eftir koma þrír Sunnlendingar í röð; Hafsteinn, Jón Örn Ingileifsson og Gísli G.

Í götubílaflokknum hafði Jón Vilberg Gunnarsson nánast tryggt sér titilinn fyrir lokaumferðina. Hann stóð uppi sem Íslandsmeistari en Ívar var fimm stigum á eftir honum þegar upp var staðið eftir sigurinn á sunnudeginum.

Eins og venjan er á verðlaunahófi eftir Greifatorfæruna þá fær þar stigahæsti maður dagsins, og nú helgarinnar, titilinn Greifinn 2012. Að þessu sinni var það Ívar Guðmundsson sem bar flest stig úr býtum eftir tveggja daga keppni og mun því bera titilinn Greifinn næsta árið.

Lokastaðan á Íslandsmótinu

Sérútbúnir (sex efstu)
1. Ólafur Bragi Jónsson – 40 stig
2. Benedikt Helgi Sigfússon – 38 stig
3. Hafsteinn Þorvaldsson – 31 stig
4. Jón Örn Ingileifsson – 26 stig
5. Gísli G. Jónsson – 24 stig
6. Árni Kópsson – 20 stig

Götubílar
1. Jón Vilberg Gunnarsson – 67 stig
2. Ívar Guðmundsson – 62 stig
3. Stefán Bjarnhéðinsson – 55 stig
4. Sævar Már Gunnarsson – 40 stig
5. Steingrímur Bjarnason – 20 stig
6. Róbert Agnarsson – 8 stig