Íþróttahreyfingin vinnur saman í samkomubanninu

Ljósmynd/UMFÍ

„Við finnum að það vefst fyrir mörgum félögum er oft á tíðum flókin úrvinnsla og samhæfing til þess að geta boðið upp á æfingar miðað við þær forsendur og aðstæður sem þær geta farið fram undir í ljósi tilkynninga gærdagsins. Fólk er einfaldlega að vinna í því að láta púsluspilið ganga upp. Sú vinna heldur áfram um helgina,‟ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Hún og Líney Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, funduðu stíft í gær með ráðamönnum og Almannavörnum í kjölfar þess að stjórnvöld virkjuðu heimildir sóttvarnarlaga til að takmarka samkomur á Íslandi.

Í þeim felst sú fordæmalausa aðgerð að takmarkanir eru settar á allar skipulagðar samkomur vegna farsóttar, þ.e. samkomubann sem tekur gildi á miðnætti á sunnudagskvöld til næstu fjögurra vikna. Samkomubannið felur í sér að ekki verði fleiri en 100 einstaklingar staddir í sama tíma í sama rými auk fleiri kvaða. Samkomubannið nær til allra skipulagðra viðburða á borð við skólastarf, íþróttaviðburði, íþróttaæfingar og til starfsemi íþróttahúsa. Ljóst er því að samkomubannið mun hafa mikil áhrif á rekstur ungmenna- og íþróttafélaga. 

Mörgum spurningum ósvarað
Auður Inga segir mörgum spurningum enn ósvarað um það hvernig íþróttastarfi verði háttað næsta mánuðinn, sérstaklega í yngri flokkum og verði helgin nýtt í að leita svara áður en samkomubannið skellur á.

„Ég upplifi mikla samstöðu innan íþróttahreyfingarinnar og vil hrósa ÍSÍ, sérsamböndum og íþróttahéruðum ásamt aðildarfélögum þeirra fyrir samstarfið í málinu. Við finnum fyrir miklum vilja hjá hverjum og einum til að leggja sitt af mörkum á baráttunni við veiruna,‟ segir hún.

„Félögin eru full af keppnisfólki sem nú beinir kröftum sínum frá einstökum íþróttagreinum yfir í baráttu fyrir heilsu þjóðarinnar. Þá baráttu getum við einungis tekist á við saman til að ná árangri og ég upplifi að þar séum við öll í sama liði,“ bætir Auður Inga og bætir við að ÍSÍ og UMFÍ munu gera sitt besta til að miðla upplýsingum til íþróttahreyfingarinnar þegar nýjar upplýsingar koma fram.

Svör við nokkrum af helstu spurningunum um íþróttastarfi liggja þegar fyrir. Þau eru m.a. birt á vefsíðu UMFÍ auk þess sem þau eru send til sambandsaðila ÍSÍ og UMFÍ. Þar munu bætast við fleiri svör þegar þau liggja fyrir.

Fyrri greinNíutíu nemendur og sex starfsmenn FSu í sóttkví
Næsta greinTæplega 300 nemendur Grunnskólans í Hveragerði í sóttkví