
Íþróttafélagið Hamar fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á Hótel Örk í Hveragerði þriðjudaginn 18. nóvember síðastliðinn.
Kári Mímisson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ afhenti fulltrúum félagsins viðurkenninguna fyrir aðalstjórn og sjö deildir félagsins, badmintondeild, blakdeild, fimleikadeild, knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild, lyftingadeild og sunddeild.
Til að fá útnefningu sem fyrirmyndarfélag þarf íþróttafélagið að uppfylla ströng skilyrði um gæði í starfi sem felast meðal annars í gerð handbóka fyrir starfið, mörkun stefnu í ýmsum málum svo sem jafnréttismálum, umhverfismálum, fræðslu og forvarnarmálum og svo mætti lengi telja.
„Þetta eru tímamót í starfi Hamars og markmiði náð sem stefnt hefur verið að undanfarin ár. Því fylgir gleði, stolt og þakklæti að ná markmiðum,“ sagði Þorsteinn T. Ragnarsson formaður Íþróttafélagsins Hamars af þessu tilefni.

