Íslandsmótinu í hestaíþróttum aflýst

Hestamannafélagið Geysir fékk hæsta styrkinn á Suðurlandi en ekkert varð af landsmóti hestamanna sem halda átti á Hellu. Mynd: Gígja D. Einarsdóttir

Stjórn Landssambands hestamannafélaga hefur tekið þá ákvörðun að aflýsa fyrirhuguðu Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna í hestaíþróttum sem halda átti 12. til 16. ágúst næstkomandi á Hellu.

„Við þessar fordæmalausu aðstæður sem COVID-19 veiran hefur kallað yfir heimsbyggðina hefur Landssamband hestamannafélaga haft samfélagslega ábyrgð í forgrunni við allar ákvarðanatökur sem við höfum staðið frammi fyrir og er svo einnig núna,“ segir í tilkynningu frá LH.

„Við teljum ekki forsvaranlegt í ljósi aðstæðna að Íslandsmótið 2020 verið haldið og höfum því ákveðið, í samráði við Hestamannafélagið Geysi, að aflýsa því,“ segir ennfremur í tilkynningunni.