Íslandsmótið í holukeppni í Þorlákshöfn um helgina

Ljósmynd/golf.is

Íslandsmótið í holukeppni 2021 fer fram á Þorláksvelli hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar um helgina og hefst í dag. Keppt er í kvenna– og karlaflokki.

Mótið í ár er það 34. frá upphafi en fyrst var keppt um Íslandsmeistaratitla í holukeppni í karla – og kvennaflokki árið 1988. Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er á Þorláksvelli á Íslandsmóti í fullorðinsflokki í einstaklingskeppni á vegum Golfsambands Íslands.

Keppnisfyrirkomulagið er líkt og verið hefur á undanförnum árum. Keppendum í karla– og kvennaflokki er raðað í átta riðla og þar réð staða kylfinga á stigalista í hvaða riðlum þeir leika.

Í riðlakeppninni eru leiknar þrjár umferðir og verður síðasta umferðin leikin á laugardagsmorgun. Átta manna úrslit hefjast síðan eftir hádegi á laugardag – undanúrslitin fara fram fyrir hádegi á sunnudaginn og úrslitaleikirnir hefjast rétt eftir hádegi á sunnudag.

Fyrri greinLitla kaffistofan lokar
Næsta greinGóð aðsókn og áhugi á málþingi um biskupsfrúrnar