Íslandsmótið í atskák á Selfossi

Tómas Þóroddsson lék fyrsta leik mótsins í fyrra fyrir Hjörvar Stein gegn Degi Kjartanssyni. Ljósmynd/Aðsend

Þann 30. desember næstkomandi verður Íslandsmótið í atskák haldið á Selfossi í annað sinn.

Það er hlaðvarpsþátturinn Chess After Dark sem stendur fyrir mótinu í samstarfi við veitingastaðinn Kaffi krús en Tómas Þóroddsson á Kaffi krús er helsti bakhjarl mótsins.

Mótið verður haldið í Bankanum vinnustofu að Austurvegi 20, beint á móti gamla bankanum sem hýsir Fischersetrið. Gífurlega góð þátttaka var á mótinu í fyrra og má ætla að hún verði ekki síðri í ár enda hefur skákáhugi aukist til muna meðal fólks á öllum aldri.

Mótið hefst klukkan 14:00 og eru tímamörk 10+3. Níu umferðir verða tefldar og er aðeins tekið við skráningu á netinu, ekki á staðnum. Lokað verður fyrir skráningu í mótið föstudaginn 29. desember kl 23:59.

Sigurvegari mótsins hlýtur nafnbótina Atskákmeistari Íslands 2023. Núverandi Íslandsmeistari er stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson. Í lok móts verður verðlaunaafhending og lokahóf sem fer einnig fram í Bankanum vinnustofu.

Verðlaun fyrir fyrsta sætið eru 110.000 krónur, fyrir annað sætið 55.000 krónur og fyrir þriðja sætið 30.000 krónur. Þátttökugjald er 3.500 kr. fyrir fullorðna og 2.500 kr. fyrir 17 ára og yngri. Mótið verður reiknað til alþjóðlegra skákstiga.

Skráning fer fram hér

Skráðir keppendur

Fyrri greinHelga Fjóla bætti 39 ára gömul HSK met
Næsta greinGert ráð fyrir jákvæðum rekstri í Rangárþingi eystra