Íslandsmót í hestaíþróttum á Selfossi

Íslandsmót í hestaíþróttum 2011 verður á Selfossi í boði Hestamannafélagsins Sleipnis.

Mótið verður haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 13.-16. júlí nk.

Undirbúningur fyrir mótið hefur staðið frá því sl. vetur og hafa töluverðar framkvæmdir verið á Brávöllum nú í vor og sumar. Sveitarfélagið Árborg kemur myndarlega að mótinu en félagið fékk 7 milljónir króna til framkvæmda á svæðinu. Svæði Brávalla hefur verið byggt upp í samstarfi hestamannafélagsins og sveitarfélagsins.

Frá síðasta Íslandsmóti hefur verið byggð reiðhöll á svæðinu sem gerir aðstöðu félagsins enn betri en áður. Tilkoma reiðhallarinnar hefur verið mikil lyftistöng í starfi félagins. Frá því að hún var tekin í notkun hafa verið nær daglega námskeið og annað fræðlsustarf í gangi í húsinu fyrir bæði unga sem aldna.

Skráning á mótið fer fram hjá aðildarfélagi hvers keppanda. Aðildarfélagið skráir síðan sína keppendur á mótið í gegnum sportfengur.is skráningargjaldið er kr. 5.000 fyrir hverja grein og greiðist við skráningu. Síðasti skráningardagur er 7. lúlí nk.

Verið velkomin til okkar Sleipnismanna á Brávelli, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Margrét K. Erlingsdóttir
Fjölmiðlafulltrúi Íslandsmóts