Íslandsmet og HM lágmörk hjá Snæfríði

Snæfríður Sól Jórunnardóttir. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Hvergerðingurinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sem syndir fyrir Aalborg Svømmeklub, náði frábærum árangri á Opna danska meistaramótinu í sundi sem fram fór í Brønshøj um helgina.

Hún byrjaði á að synda 50 m flugsund í gær á tímanum 27,06 sek sem er undir lágmarkinu fyrir heimsmeistaramótið í 50 m laug, sem haldið verður í Fukuoka í Japan í júlí.

Í morgun sló hún svo tæplega mánaðar gamalt Íslandsmet sitt í 100 m skriðsundi þegar hún synti í undanrásum á 55,18 sek en fyrra met hennar var 55,61 sek. Í úrslitasundinu síðdegis synti hún svo á nákvæmlega sama tíma og jafnaði Íslandsmetið frá því í morgun. Snæfríður varð önnur í sundinu.

Tíminn í 100 m skriðsundinu er einnig undir HM50 lágmarkinu og Snæfríður því komin með tvö lágmörk inn á mótið.

Fyrri greinSvífa um á bleiku skýi
Næsta greinUnnu deildarmeistarabikarinn til eignar