Íslandsmet, mótsmet og fimm HSK met á MÍ 11-14 ára

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð sjöfaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára pilta. Ljósmynd/FRÍ

Lið HSK/Selfoss varð í 2. sæti í heildarstigakeppninni á Meistaramóti Íslands 11-14 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri 9.-10. júlí síðastliðinn.

Stigakeppnin var æsispennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en kom að boðhlaupunum í lokin en ÍR sigraði heildarstigakeppnina með 777 stig og HSK/Selfoss hlaut 770,5 stig. Þar á eftir komu heimamenn í Ungmennafélagi Akureyrar með 434 stig.

HSK/Selfoss vann stigakeppnina í tveimur aldursflokkum, flokki 14 ára pilta og einnig í flokki 12 ára stúlkna.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð sjöfaldur Íslandsmeistari í flokki 14 ára pilta. Hann sigraði í þrístökki á nýju HSK meti, 11,71 m, en gamla metið átti Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, 11,69 m. Í kúluvarpinu sigraði Hjálmar Vilhelm á nýju mótsmeti, 13,28 m og hann náði einnig í gullverðlaun í 300 m hlaupi, hástökki, kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti og var auk þess í sveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi. Með honum í sveitinni voru Vésteinn Loftsson, Kormákur Hjalti Benediktsson og Ívar Ylur Birkisson. Ívar Ylur bætti svo tveimur gullverðlaunum í safnið því hann varð Íslandsmeistari í 80 m grindahlaupi og 300 m grindahlaupi.

Helga Fjóla Erlendsdóttir var sigursæl í flokki 13 ára stúlkna. Ljósmynd/FRÍ

Helga Fjóla Erlendsdóttir var sömuleiðis sigursæl í flokki 13 ára stúlkna. Hún varð fimmfaldur Íslandsmeistari og sigraði í 80 m grindahlaupi, 300 m grindahlaupi, hástökki, langstökki og þrístökki. Hún vann síðan silfur í 300 m hlaupi og setti þar nýtt HSK met, 47,53 sek en gamla metið í þessum aldursflokki var orðið 27 ára gamalt og það átti Sigrún Dögg Þórðardóttir, Umf. Þór.

Í sama flokki varð Aldís Fönn Benediktsdóttir Íslandsmeistari í kúluvarpi og þá varð Bryndís Embla Einarsdóttir varð tvöfaldur meistari í flokki 13 ára, en hún sigraði bæði í 2.000 m hlaupi og spjótkasti. Spjótkastið sigraði hún með nýju og glæsilegu Íslandsmeti, kastaði 39,50 m en gamla metið átti Halla María Magnúsdóttir, Umf. Selfoss, og var það orðið tíu ára gamalt, 39,21 m. Sigurkast Bryndísar Emblu er héraðsmet, bæði í flokkum 13 og 14 ára stúlkna. Bryndís Embla hljóp svo 2.000 metrana svo á nýju HSK meti, 9:03,87 mín.

Í 12 ára flokknum varð Adda Sóley Sæland Íslandsmeistari í spjótkasti og í flokki 11 ára sigraði Magnús Tryggvi Birgisson í kúluvarpi.

Þar að auki unnu keppendur HSK/Selfoss sautján silfurverðlaun og 22 bronsverðlaun en ekkert félag átti oftar fulltrúa á verðlaunapallinum.

Bryndís Embla setti Íslandsmet í spjótkasti 13 ára stúlkna. Ljósmynd/FRÍ
Fyrri grein„Einhver mesta stuðsprengja sem hefur komið út“
Næsta greinSkipa vinnuhóp um þróun íþróttasvæða