Íslandsmeistararnir með sýningu

Luciano Massarelli og Ronaldas Rutkauskas voru öflugir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs sýndu það og sönnuðu í kvöld að þeir eru besta lið landsins í dag, því þeir völtuðu yfir Keflavík í úrvalsdeild karla í körfubolta, þegar liðin mættust í Þorlákshöfn.

Þór tók leikinn í sínar hendur strax í upphafi og leiddi í leikhléi með 27 stiga mun, 63-36, eftir magnaðan fyrri hálfleik. Sýningin hélt áfram í seinni hálfleik og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 89-57. Þórsurum héldu engin bönd og þeir slökktu allan neista í Keflvíkingum, sem hafa verið á toppnum í deildinni lengst af í vetur. Lokatölur urðu 114-89.

Luciano Massarelli átti frábæran leik í kvöld en hann spilaði 23 mínútur, skoraði 32 stig og sendi 6 stoðsendingar. Ronaldas Rutkauskas skoraði 19 stig, Daniel Mortensen 16, Ragnar Örn Bragason 14 og Kyle Johnson 11.

Þórsarar eru nú í toppsæti deildarinnar með 24 stig, Njarðvík er í 2. sæti með 22 stig og Keflavík í 3. sæti með 20 stig. Njarðvík og Keflavík eiga leiki til góða á Þór.

Fyrri greinSelfyssingar gengu berserksgang
Næsta greinFH of stór biti