Íslandsmeistararnir knúðu fram oddaleik

Styrmir Snær Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór og Valur mættust í kvöld í fjórða leik undanúrslitaeinvígis Íslandsmóts karla í körfubolta. Lokatölur í Þorlákshöfn urðu 94-103 og Íslandsmeistarar Vals jöfnuðu þar með 2-2 í einvíginu og knúðu fram oddaleik sem verður að Hlíðarenda á þriðjudagskvöld.

Fimmtán hundruð áhorfendur voru í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn í kvöld og fengu frábæran leik fyrir aðgangseyrinn. Þórsarar byrjuðu af miklum krafti og náðu góðu forskoti í upphafi leiks en Valsmenn komu hamramir inn í 2. leikhlutann og staðan í hálfleik var 42-59, en Valur skoraði 37 stig í 2. leikhluta.

Allan seinni hálfleikinn söxuðu Þórsarar á forskot Vals og í upphafi 4. leikhluta var staðan 75-85. Þórsarar náðu hins vegar ekki stóra áhlaupinu sem þurfti á lokakaflanum og Valur vann að lokum með níu stiga mun.

Styrmir Snær Þrastarson átti stjörnuleik fyrir Þór, skoraði 32 stig, sendi 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst.

Þór Þ.-Valur 94-103 (27-22, 15-37, 27-24, 25-20)
Tölfræði Þórs: Styrmir Snær Þrastarson 32/6 fráköst/7 stoðsendingar/4 varin skot, Vincent Shahid 21/9 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 15/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 12/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 8, Emil Karel Einarsson 6.

Fyrri greinFínt skíðafæri í Flóanum
Næsta greinSelfyssingar til fyrirmyndar