Íslands- og héraðsmet sett á MÍ í fjölþrautum

Anna Metta Óskarsdóttir. Ljósmynd/María Ólafsdóttir

Sunnlendingar náðu frábærum árangri á Meistaramót Íslands í fjölþrautum, sem haldið var á ÍR-vellinum í Breiðholti um helgina. Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi og Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, urðu Íslandsmeistarar.

Helga Fjóla sigraði í sjöþraut 16-17 ára stúlkna með 4.165 stig. Hún hljóp meðal annars á 15,50 sek í 100 m grindahlaupi, sem gaf henni 777 stig og þá sigraði hún í hástökkinu með stökk upp á 1,59 m sem gaf 724 stig.

Helga Fjóla (t.v.) ásamt Súsönnu Halldórsdóttur, UMSS, sem hún háði harða keppni við í sjöþrautinni. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Anna Metta sigraði í fimmtarþraut í flokki 15 ára á nýju Íslandsmeti, 2.802 stigum, sem að sjálfsögðu er einnig HSK met. Hún sigraði meðal annars í langstökki með 5,14 m stökki sem gaf 598 stig og spjótkastið þegar hún kastaði spjótinu 32,66 m og fékk fyrir það 527 stig. Þá náði hún einnig góðum tíma og bætingu í 80 m grindahlaupi, hljóp á 12,81 sek og fékk fyrir það 618 stig.

Magnús Tryggvi Birgisson, Umf. Selfoss varð í þriðja sæti í fimmtarþraut í flokki 15 ára pilta með 2.082 stig. Magnús Tryggvi er 14 ára gamall og árangur hans er HSK met bæði í 14 og 15 ára flokki. Hann sigraði kastgreinarnar báðar, kastaði kringlunni 33,28 m og spjótinu kastaði hann 36,80 m og bætti sinn besta árangur. Hann bætti sig einnig í 100 m grindahlaupi og 800 m hlaupi, sem hann hljóp á 2:43,32 mín og fékk fyrir það 535 stig.

Magnús Tryggvi (t.h.) á verðlaunapalli ásamt ÍR-ingunum Tómasi Inga Kermen sem sigraði og Matthíasi Derek Kristjánssyni sem varð í 2. sæti. Ljósmynd/Ágústa Tryggvadóttir
Fyrri greinRafmagnslaust undir Eyjafjöllum í nótt – Mýrdælingar beðnir um að spara rafmagnið
Næsta greinSnorra Sturlusonar-messa í Oddakirkju