Íslands- og héraðsmet féllu á Unglingalandsmótinu

Þrefaldur HSK sigur í kringlukasti stúlkna 13 ára, (f.v.) Bryndís Embla Einarsdóttir, Helga Fjóla Erlendsdóttir og Arndís Eva Vigfúsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þó að gleðin og samveran sé í fyrirrúmi á Unglingalandsmóti UMFÍ þá náðu margir keppendur góðum árangri inni á frjálsíþróttavellinum á mótinu sem haldið var á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, tvíbætti eigið Íslandsmet í spjótkasti í flokki 13 ára stúlkna og setti um leið mótsmet og að sjálfsögðu héraðsmet. Fyrst kastaði hún 40,45 m og svo 42,26 m. Hún bætti einnig héraðsmet sín í spjótinu í 14 ára flokki og met systur sinnar, Hildar Helgu Einarsdóttur í 15 ára flokki. Bryndís Embla setti því fimm HSK met.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, tvíbætti eigið héraðsmet í spjótkasti í flokki 14 ára pilta og setti mótsmet þegar hann kastaði 52,46 m og svo 52,82 m. Hjálmar Vilhelm nálgast nú óðfluga Íslandsmetið í 14 ára flokknum en það á tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti, 53,03 m, sett árið 2006.

Þá bætti Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, héraðsmetið í 800 m hlaupi í flokki 15 ára pilta, hljóp á 2:05,75 mín og setti um leið mótsmet á Unglingalandsmótinu.

Fjölmargir aðrir náðu góðum árangri á frjálsíþróttamótinu en keppendur frá HSK fóru langoftast allra á verðlaunapall, en samtals unnu keppendur HSK 128 verðlaun á mótinu, 40 gull, 47 silfur og 41 brons.

Unglingalandsmótið á Selfossi tókst frábærlega og um 1.000 mótsgestir á aldrinum 11-18 ára skemmtu sér í keppni í rúmlega tuttugu greinum ásamt foreldrum sínum, systkinum, ættingum og vinum.

Í tilkynningu frá HSK er öllum þeim þakkað sem komu að mótinu og sérstakar þakkir fá sjálfboðaliðar sem gerðu það mögulegt að halda mótið. Samstarfsaðilum og styrktaraðilum er einnig þakkaður stuðningurinn og samstarfið.

Hjálmar Vilhelm sigraði í spjótkasti 14 á pilta á nýju mótsmeti. Annar varð Vésteinn Loftsson og þriðji Sigurður Emil Pálsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þorvaldur Gauti hljóp frábærlega til sigurs í 800 m hlaupi á nýju mótsmeti. Með honum á palli voru Pétur Óli Ágústsson, ÍBR (t.v.) og Steinar Aðalsteinsson, UÍA. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGaman er að koma í Keflavík
Næsta greinVerðlaunamyndir boðnar upp í Listagjánni