Ísland vann brons á Algarve

Kvennalið Íslands í knattspyrnu vann Nýja-Sjáland í leik um bronsið á Algarve-mótinu sem lauk í Portúgal í dag. Úrslitin réðust í bráðabana.

Hrafnhildur Hauksdóttir var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn en Dagný Brynjarsdóttir kom inná á 60. mínútu. Hólmfríður Magnúsdóttir sat allan tímann á bekknum.

Andrea Hauksdóttir kom Íslandi yfir á 27. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Nýja-Sjáland jafnaði metin á 70. mínútu og staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Þá var gripið til vítaspyrnukeppni, þar sem leikir á Algarve-mótinu fara ekki í framlengingu.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu fimm spyrnum sínum, en Dagný tók fjórðu spyrnu Íslands. Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður, varði fyrstu spyrnu Ný-Sjálendinga í bráðabananum og Sandra María Jessen steig næst á punktinn og tryggði Íslandi sigur. Lokatölur, 7-6.

Kanada vann 2-1 sigur á Brasilíu í úrslitaleiknum og vann því mótið. Ísland tapaði einungis einum leik á mótinu sem var gegn Kanada.

Ísland vann bronsið seinast árið 2014 á Algarve-mótinu.

Fyrri greinHamar tapaði í jöfnum leik
Næsta greinSérstakt eftirlit með ferðaþjónustubílum