ÍSÍ gefur héraðsskjalasöfnunum afmælisbók

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ afhenti í gær fulltrúum héraðsskjalasafna á Íslandi eintak af afmælisbók ÍSÍ sem ber heitið „Íþróttabókin – ÍSÍ, saga og samfélag í 100 ár“.

ÍSÍ hefur ákveðið að gefa öllum héraðsskjalasöfnum á landinu eintak af bókinni, sem inniheldur mikinn fróðleik um íþróttir í íslensku samfélagi síðustu 100 árin. Bókin var gefin út í tilefni af aldarafmæli sambandsins í fyrra.

Á afmælisárinu stóðu ÍSÍ og héraðsskjalasöfn á landinu fyrir átaki í að safna og skrá skjöl íþróttafélaga landsins. Meginmarkmið átaksins var að safna og skrá eldri skjöl íþróttafélaga, s.s. fundargerðir, sendibréf, félagaskrár, bókhald og ljósmyndir. Góður árangur varð af átakinu en milli 150 og 200 hillumetrar af skjölum frá yfir 300 íþróttafélagum eru nú í vörslu héraðsskjalasafnanna.

Átakið var upphafið að góðri samvinnu íþróttafélaga og héraðsskjalasafna á landinu sem vonandi skilar áframhaldandi vitundarvakningu um mikilvægi þess að varðveita gögn og ljósmyndir úr starfi íþróttahreyfingarinnar.

Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður, tók við gjöfinni fyrir hönd Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Fyrri greinGóð sending frá Utangarðsmönnum
Næsta greinÁtján ára með hæstu einkunn FSu-stúdents frá upphafi